Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Á landleið eftir mikið bras.

Góðan og blessaðan daginn, jæja loksins hefur maður sig í það að koma með einhverjar fréttir af okkur sulla mönnum, hefur verið mjög svo rólegt yfir veiðinni hjá okkur í þessum túrnum. Á föstudaginn voru komin ein 600 tonn í bátinn og var trollið nú látið gossa í hafið seinnipart föstudags. Ekki grunuðu menn um að það tog mundi enda með algjörum hörmungum og yrði okkar síðasta tog í þessum túrnum. En í gærmorgun dundu ósköpin yfir, vorum við á beinu togi í blíðskaparveðri er önnur nýjafínadýra ofurtogtaugin slitnaði, og þar með sat það ekki, heldur slitnaði hin nýjafínadýra ofurtogtaugin líka í kjölfarið og allt veiðarfærið, frá hlerum og aftur úr, var þar með horfið og sest á botn Ægis og það á 450 faðma dýpi. Héldu menn að svo stór síldartorfa hafi lent í trollinu að taugarnar hafi gjörsamlega þanið sig til hins ýtrasta og gefist upp að lokum, því mikið lóð var undir bátnum og virtist vera á leið aftur í troll, en þá gerðist það, eins og hendi væri veifað, taugarnar slitnuðu og lóðið sem var hvarf, eins og "slökkt" hafi verið á því, telja menn fyrir víst að þarna hafi verið rússneskur njósnakafbátur sem var á hernaðaræfingu við Jan Mayen fyrir nokkru á ferðinni og rekist í taugarnar hjá okkur með fyrrgreindum afleiðingum.

Voru góð ráð dýr nú þar sem engar voru græjur hér um borð til að slæða upp trollið, komu þá peyjarnir á Huginn VE 55 okkur til bjargar, þar sem þeir lánuðu okkur sannkallaða lukku krækju og kunnum við Gylfa og hans mönnum bestu þakkir fyrir lánið á henni.

sild_068.jpg Renndum við okkur upp að Hugin, stóðu þeir klárir með lukku krækjuna handa okkur, þess má geta að þeir voru nýbúnir að dæla einum 180 tonnum af eðal góðri síld í sig þarna.

Hífðum við slæðuna yfir til okkar og gerðum hana klára á togvírinn, hófst svo slæðingin. Voru menn nú ekki vonmiklir við að sjá þetta troll nokkurn tímann aftur en samt skildi prufað. Og viti menn, í þriðju tilraun beit heldur betur á snærið hjá okkur og slæddum við upp trollið eftir að kapteinn Grétar var búinn að hringsóla yfir blettinum þar sem þetta gerðist í nokkurn tíma.

Hófst þá vinnan við að koma draslinu um borð og gekk það framar vonum, tók það aðeins um 5 tíma eftir að slæðan kom upp og trollið komið á tromluna, klárt að reima pokann frá og hlerar komnir í gálga. Já eftir allar þessar æfingar losuðum við pokann frá, hífðum hann á síðuna og dældum 200 tonnum úr honum.

sild_096.jpg Eins og sjá má fór trollið ekki alveg sína hefðbundnu leið inn á tromlu, mikið snúið og flækt, en er það nánast órifið. Verður nóg að gera hjá Stéfáni og hans mönnum hjá Egersund við að leysa úr flækjunni.

 

sild_098.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Annar hlerinn að koma upp, vafinn taugum, gröndurum og ýmsu fleiru.

 

Var nú mönnum létt að ná þessu öllu saman upp og nánast öllu heilu, gekk þetta allt saman vel fyrir sig, og framar öllum vonum. Erum við nú á leið til Eskifjarðar með 800 tonn og verðum þar eftir hádegið.

Þar til næst.

Kv. Jón Kj.

SVH


Nýr túr hafinn með fiskilöggu um borð.

   Já góðan og blessaðan daginn gott fólk, héðan af Sulla er allt fínt að frétta, vorum í landi á mánudaginn og lönduðum við 1200 tonnum, þar af var 90 tonn makríll og 85 tonn kolmunni. Gekk löndun stóráfallalaust fyrir sig, að mestu, gleymdu menn sér aðeins í gleðinni við að pumpa dýrmætum gjaldeyri í land og settu bátinn heldur mikið á hliðina og slitu þar með einn enda. Allt endaði þetta nú á besta veg og eftir smá tiltal frá vakthafandi vélstjóra, lofuðu löndunarmenn því að þetta skyldi ekki aftur gerast, menn hefðu bara verið svo ánægðir að fá okkur aftur undir löndunarkranann eftir smá frí hjá okkur, voru allir vinir að lokum.

   Erum við með um borð í þessum túr fiskilöggu, verður hún nú okkur ekki til vandræða, þar sem minnsta málið er að múta henni og það með öllum andskotanum.  Gengur það vel. Eeen að öllu gamni sleppt þurfum við ekki að hafa áhyggjur af löggunni þar sem allt er sko í bestasta standi hjá okkur, eru tveir svo mjög samviskusamir menn hér um borð sem sjá um prufur og sýnatöku. Eru það Stéfán stýrimaðurinn frá Kongó og Óðinn Leifsson prjónakall, segist Ói nú prjóna að meðaltali tvær ullarpeysur á dag er hann er í landi, hef ég nú ekki fengið þetta staðfest hjá henni Þorbjörgu.

   Það er aldrei að vita nema ég komi með mynd af löggunni hérna á síðunni, og jafnvel smá viðtal, kann nú ekki við að æða inn í klefann hans núna og smella mynd af honum, til að birta núna, þar sem hann sefur sínum væra blund. Erum við nú á toginu og eru 2 nemar komnir inn er þetta er skrifað.

Þar til næst

Kv. Jón Kj.

SVH


Bongó blíða

Sælt veri fólkið, ekki höfum við náð að halda sama gangi á veiðunum eins og við byrjuðum túrinn á, hefur síldin verið dálítið brögðótt og öllu fremur stygg, mega starfsmenn í brú hafa sig alla við við að snara síldinni í trollið og koma henni í pokann. Erum við búnir að taka 3 hol og aflinn um 800 lestir, máttum við leita í sólarhring að síldinni eftir annað holið okkar áður en við köstuðum aftur.

Dagurinn í dag er búinn að vera algjör Kongó, spegilsléttur sjór og bjart. Hafa menn nýtt sér daginn í hin ýmsu verk og fór ljósmyndari síðunnar á stjá vopnaður myndavélinni og fangaði nokkur augnablik. 

Afleysingarkokkurinn hann Bjarni er svo sannarlega að standa sig í stykkinu, hefur hann borið fram nýbakað bakkelsi með kaffinu dag eftir dag og er óhætt að segja að menn leggi ekki af í þessum túrnum.

Er kokkurinn hér að huga að bakstrinum, hvort það sé ekki allt í lagi með þetta hjá sér.

Hér svo afraksturinn "warm apple pie" og einnig tvær hendur sem tilheyra tveim góðkunningjum kokksins, skal ósagt látið hvort fleiri hafi verið búnir að fá sér bita af kökunni er þarna var komið við sögu, en spyr ég nú, hverjir eiga þessar hendur?

 Óðinn var í óðaönn að þrífa bátinn hátt og lágt er ljósmyndari rakst á hann, hér sést hann munda háþrýstibyssuna og beina henni að brúnni,  taldi hann vissara fyrir menn að flækjast ekki fyrir sér því þá ættu menn ekki bara hættu að fá all hressilegt bað heldur líka orðið fyrir húðskemmdum og jafnvel misst útlimi, svo öflug væri byssan.

 Hér sést svo undirritaður uppi á vinnuborði og þrífa hátt og lágt, ástæðan að hann skuli vera uppi á borði er sú að hann er dálítið stuttur, en það er bara í annan endann, ekki báða.

 

 

 Slóu menn upp í heljar grillveislu eftir amstur dagsins og sá Þorsteinn maskínustjóri, settur sérstakur aðstoðarmaður kokksins, um að grilla ofan í liðið. Stóð Óðinn klár á kantinum og tilbúinn að þrífa grillið eftir notkun.

Þar til næst.

Kv. Jón Kj.

SVH


Komnir á hafið á ný

Sælt verið fólkið, langt síðan síðast, höfum við á Sulla verið í býsna góðu fríi, eða frá því helgina fyrir verslunarmannahelgi. Var nú ástæðan fyrir stoppinu að blessaður makríllinn, sem við megum ekki veiða, þökk sé Jóni bé, var alltaf að flækjast fyrir okkur var því tekin sú ákvörðun að stoppa skyldi skipið þar til makríllinn væri hættur að blanda geði við síldina. Var það svo sl. sunnudagskvöld að blásið var í herlúðana og menn skildu klárir vera 13:00 á mánudegi, og nú skyldi fram sækja og fórnarlambið yrði sú norsk/íslensk ættaða síld. Er takmarkið að drepa mikið á stuttum tíma. Vorum við komnir á vígstöðvarnar í morgunsárið og lét Ragnar ofursti menn gera vopn sín klár. Hófst svo bardaginn, eftir fjögurra tíma sókn var nú ákveðið hvað mikið lægi í valnum, og viti menn, höfðum við drepið um 350 tonn af þessari fínu síld, er hún nú í sérmeðferð hjá vélamönnum skipsins, sem sjá um að hún haldist sem köldust og ferskust, er gott gengi þar á bæ.

Þar til næst.

Kv. Jón Kj.

SVH


Höfundur

Jón Kjartansson SU-111
Jón Kjartansson SU-111

Uppsjávarskip með 15 manns i áhöfn, en um borð 10 menn í hverri veiðiferð.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband