Leita í fréttum mbl.is

Veiðar hafnar

Jæja, þá erum við byrjaðir á veiðum í okkar síðasta túr, fengum við skítakalda á okkur hingað og var því ákveðið að sigla í gegnum Vestmannasund, en það skilur að eyjarnar Straumey og Vágar.

Sést hér á myndinni hvar Vestmannasundið liggur og hvar við sigldum um. Má þess geta að vindmælirinn hjá okkur sýndi 30m/s rétt áður en við komum inn í sundið, blés því Kári hressilega.

 

 

 Koltur

Landslagið í Færeyjum er stórkostlegt, þar sem fjöllin há rísa uppúr hafinum með sínar snarbröttu hlíðar. Hér er það Koltur sem rís úr djúpi hafsins. En Koltur þýðir folald og á það vel við því næsta eyja við heitir einmitt Hestur og er mun stærri en Koltur.

Hestur

 

 

Hestur er svo sunnan við Kolt, tignarlegur að sjá. Ekki hef ég hugmynd um af hverju þessi nöfn koma til, kannski einhver naskur netverji sem geti frætt okkur um það?

 

 

 

 Erum við búnir að taka tvö hol eftir að komið var á bleyðuna, hefur það nú ekki gengið snurðulaust fyrir sig. Hífðum við í gærkvöldi, voru þeir félagar Ægir og Kári heldur betur búnir að færa sig upp á skaftið og létu ófriðlega, er hlerar voru komnir upp og byrjað var að hífa á tromlunni hófust herleg heitin. Átti nú okkar öfluga tromla við ramman reip að draga, kvein og söng í öllu spilkerfinu eins og enginn væri morgundagurinn, svo þungt var í. Háðum við mikla baráttu við að ná þessu upp, minnti þetta einna helst eins og verið er að draga barmafulla nót á staut, vísuðu troll og höfuðlínukapall lóðbeint niður. Eitthvað varð undan að láta og slitnaði höfuðlínukapallinn hjá okkur og er við vorum að ná stykkinu inn byrjuðu möskvar að slitna og leysi og fleira, var nú kappkostað að koma þessu inn og gekk það furðuvel, alveg eins og vel smurð vél. Endaði þetta allt vel og náðum við sekknum á síðuna þar sem dælt var 530 tonnum úr honum, reiknast svo að komið er 850 tonn í bátinn eftir þessi tvö hol.

Ekki þótti ráðlegt að kasta aftur þar sem skíta bræla er á miðunum, vonumst við að lægi eitthvað með morgninum svo vara trollið fái að spreyta sig í undirdjúpunum við að klófesta svartkjaftinn.

Þar til næst

Kv. Jón Kj.

SVH


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Jón Kjartansson SU-111
Jón Kjartansson SU-111

Uppsjávarskip með 15 manns i áhöfn, en um borð 10 menn í hverri veiðiferð.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband