Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2009

Á siglignu til Eskifjarðar.

Lagt var af stað heim á leið í morgun með fullfermi af kolmuna 2370 tonn sem fékkst í 6 hölum. Reiknimeistarar segja að trollið hafi verið í sjó í 36 tíma. Erum væntanlegir til Eskifjarðar á laugardagsmorgun. Veður er ágætt núna á heimsiglingunni SV 15 m/s og hálfgert lens.

Lítið hefur farið fyrir sparkspeki í dag, Doddi er ánægður með sína menn og má vera það enda ekki á hverjum degi sem lið koma til Madridar og vinna leik. Menn tóku samt eftir því að hann byrjaði að horfa einn í sínum klefa, en birtist fljótlega eftir að Púllarar skoruðu.

Picture 225


Góður afli

Erum búnir að taka 4 höl síðan við komum hér á slóðina vestur af Írlandi, afli hefur verið með ágætum í fyrsta hali voru 180 tonn svo 570 svo komu 700 og síðast 400 tonn sem gera 1850 tonn. Vegalengd héðan til Eskifjarða um 680 sml. Erum að toga núna í blíðu veðri V 8-10 m/s.

Menn bíða spenntir ef leikjum kvöldsins í meistaradeildinni, en aðeins eitt lið hafði sigur í gærkvöldi og það var lið þeirra sem í brúnni eru. menn vonast til að Liverpoolklúbburinn bjóði upp á veitingar á meðan á leik stendur og trúa ekki öðru en að formaðurinn Doddi verði með eitthvað.  Guðni yfirmeistari ætlar að styðja Liverpool og Dodda í kvöld en aðrir standa sennilega með Real Madrid.

góður sekkur


650 sjómílur að baki.

Og enn ekki komnir á kolmunaslóð, 30-70 sml enn eftir en þar er farið að sjást í Rússa og Hollendinga. Veður hefur verið að batna til muna en um tíma þurftum við að halda sjó í SV 20-30 m/s. Erum nú komnir í hina mestu blíðu S 4 m/s, og það hefur hlýnað til mikið. Ekki sést til sólar enn en vonandi kemur sólarglæta svo að Sjonni og Óðinn sóldýrkendur geti baðað sig í sólinni ein og þeirra er vani. Sveinn bloggritari okkar er í landi þennan túr, en við reynum að fylla hans skarð í skrifum þó erfitt reynist að fara í hans spor, enda Húsvíkingur með blogggenin í lagi eins og aðrir Húsvíkingar sem blogg á síðum hinna skipana.

dsc03729


Gulldepluveiðum lokið í bráð

Þá er þessum "tilrauna" veiðum á gulldeplunni lokið. Komum við í land á þriðjudagskvöldið með einhvern skítaslatta, en botninn var alveg dottinn úr veiðunum og var því ekkert annað að gera en að fara í land. Þess má geta að við fiskuðum tæp 2000 tonn af þessum pöddum og er það nú betra en ekki neitt, þar sem að engin loðnuvertíð er hafin fyrir alvöru. Stendur nú yfir þrif á lestum, en ekki veitir af því eftir þessar veiðar, þar sem að fiskurinn er mjög feitur þótt hann sé smár og lestarnar eftir því. Er stefnan tekin á kolmunnaveiðar næst og á að taka troll og fleira um borð á morgun. Höldum samt í vonina að loðnan fari nú að sýna sig svo hægt sé að gefa út meiri kvóta.

Kv. Jón Kj.

SVH


Þorrablót hjá áhöfninni

Jæja þá erum við búnir að taka þrjú hol í þessum túr, vorum komnir á miðin að morgni föstudags sl. og létum trollið renna í hafið, biðu menn spenntir eftir afrakstri dagsins og sjá hvernig nýji pokinn virkaði. Fór nú loftið úr flestum áhafnarmeðlimum er búið var að pumpa aflanum um borð, nema nóg var af lofti í Þingeyingnum ennþá, enda alvöru þingeyskt loft þar á ferð. Ákváðu nú menn á stjórnpalli að gefa pokanum annan séns og tókum við eitt hal í viðbót með hann, lét nú árangurinn á sér standa líkt og í fyrra skipti og reyndist ekki vera nema 120 rúmmetrar eftir þessar tvær sköfur. Telja menn að pokinn sé of "þétt riðinn" hvað sem það þýðir nú, en eitt er víst að gott er að vera "vel riðinn".

Yfir og fyrsti maskínustjóriMeiri partur af maskínustjórum skipsins, Björgólfur yfirmaskínustjóri og Sveinn hinn síungi, ritstjóri þessarar síðu, er hann algjörlega "óriðinn" þessa stundina.

Slóum við gamla pokanum aftur undir og tókum eitt hol í dag og reyndust vera um 150 rúmmetrar af deplunni í honum er við pumpuðum í kvöld.

 Flott hlaðborð hjá kokknum

Héldum við okkar árlega þorrablót hér um borð í gærkvöldi og gerðu menn góð skil af matnum, boðið var uppá það helsta sem tilheyrir þorramat, bæði súrt og nýtt, en töldu menn að það vantaði samt eina matartegundina, en til að vera svona nýmóðins sárvantaði pizzurnar á trogið hjá kokknum, bjargaði hann því flott og hafði heljarinnar pizzuveislu í hádeginu í dag. Tókst honum annars mjög vel með þorrablótið og á hann mikið hrós skilið.

kv. Jón Kj.

SVH


"Haldnir til veiða á nýjan leik"

Fullt af mönnum að vinna við pokannÞá erum við lagðir af stað í þriðja túr á gulldepluna eftir að hafa pumpað 800 tonnum af gullinu í land. Fengum við nýjan poka á trollið sem við bindum miklar vonir við að muni reynast okkur happadrjúgur og eigi oft eftir að vera barmafullur af gullinu góða.

 

 

 Loðnuvinnslan

Renndum við okkur inn á Fáskrúðsfjörð til að kanna atvinnuástand bæjarins og í smá fíneseringu, sögðu kallarnir á kajanum okkur í stuttu viðtali að það væri dapurt ástand í loðnuvinnslunni, engin loðna til að frysta og ekkert gull bærist í bræðsluna, en skip Loðnu-vinnslunnar, Hoffellið, hefur landað gullinu sínu í Vestmannaeyjum undanfarið, vonuðust menn að loðnan færi að gefa sig fljótt svo hægt væri að gefa út meiri kvóta og þar með láta stærsta atvinnuhjól staðarins snúast.

 

 

SkrúðurSigldum við fram hjá Skrúð í morgunsárið og má geta þess að róið var úr Skrúðnum og höfðust vermenn þá við í Skrúðshelli, sem talinn er stærstur allra hella á  Austurlandi. Sagan segir svo í Skrúðnum býr "Skrúðsbóndinn" og hefur gert um aldir. Rændi hann sauðum bænda sem létu fé sitt ganga í eyjunni auk þess sem hann tók sér að kvonfangi prestdótturina á Hólmum við Reyðarfjörð. Reyndist Skrúðbóndinn sjómönnum oft hollvættur og bjargaði þeim inn í helli sinn úr sjávarháska.

 

Það voru félagar okkar á Syninum, þeir Þór og Lalli, sem komu með rétt svar við síðustu gátu og sendum við þeim og allri áhöfninni á Alla Jóns okkar bestu kveðjur.

Kv. Jón Kj.

SVH


"Austur með landinu siglum"

Erum á landleið með 1200 rúmmetra af deplunni kennda við gull og er áætlaður komutími annaðkvöld. Létum við trollið fara fjórum sinnum í hafið í þessum túr, geta menn þá reiknað meðaltal í hverju holi. En vendum nú kvæði okkar í kross, hér um borð er hafið heilsuátak meðal skipverja því eins og allir vita eru störf sjómanna vandbundin og oft á tíðum erfið, er því gott að vera í góðu formi og huga vel að heilsunni. Taka menn þessu bara mjög vel og ætla menn að reyna gera sitt besta til að koma sér í form.

  

Eins og sést á myndunum þá taka menn þessu misalvarlega, sumir hamast pungsveittir upp brekkurnar á hjólinu, aðrir láta fara vel um sig og fara bara niður í móti og láta sig renna og enn aðrir sleppa bara æfingum og fara beint í að metta hungraða maga, fá sér hollt og gott matarræði, te og ristað brauð, eins og breskur Aðall....

En þá að gátunni, spyr ég aftur hver samdi, lag og texta, þar sem umræður og ástand í þjóðfélaginu eru allar á neikvæðu nótunum og allt að fara fjandans til á þessi texti mjög vel við í því sambandi.

          Ó, þetta sker er alveg ægilegt,

          Það er með ólíkindum hlægilegt.

          Já, það er verra en slæmt,

          Já, það er dauðadæmt,

 

kv. Jón Kj.

SVH


Sunnudagur til brælu og kokkurinn mótmælir

Já það er bræla hér á miðunum og er því trollið ekki í iðrum sjávar eins og er en við vonum að þeir félagar Kári og Ægir fari að sína okkur smá miskunn svo við getum rennt trollinu sem fyrst í hafið. Sleggjan dundi hvað eftir annað á pönnunni og uppskar mikil lætiÞess má til gamans geta að kokkurinn stóð í mótmælum í morgun, var hann hvorki að mótmæla seðlabankastjórum né ríkisstjórn, heldur var það veðrið sem hann mótmælti og var hann með ný áhöld til að berja á sem ekki hafa sést í mótmælum við Alþingishúsið né Stjórnarráð, var það veltipannan sem fékk að finna fyrir því hjá kokknum, glumdi það hátt í pönnunni að skipið lék á reiðiskjálfi. Eins og sést var hann ekki með nein vettlingatök við mótmælin.

En að öðru, gærdagurinn, var hann hinn ágætasti, hvort sem líður að veiðum eða fótbolta. Aston Villa, Everton og LIVERPOOL unnu sína leiki, en Kongóbúinn (Everton maðurinn) hoppaði hæð sína í loft upp, skoppaði og rúllaði eins og bolti fram og til baka af ánægju þegar Portsmouth komst yfir 1-0 gegn Liverpool, var nú Þorsteinn maskínustjóri og jafnframt formaður Liverpools klúbbsins hér um borð alls ekki ánægður með þau uppátæki hjá Kongóbúanum og jós yfir hann ýmsum skammaryrðum sem ekki er hafandi eftir hér á veraldarvefnum, átti hann það vel skilið.

Við pumpuðum um 400 rúmmetrum af deplunni góðu í lestar skipsins í gær og telst því vera komið um 750 rúmmetrar í skipið.

Verið að horfa á boltann

 

 

Er dagurinn í dag búinn að vera mjög rólegur hjá okkur, við reynum að láta fara vel um okkur hér í veltingnum og erum búnir að horfa á fótbolta mest allan dag, en kapteinn Grétar var ekki alveg sáttur með sína menn, Arsenal, er þeir gerðu jafntefli við Tottenham 0-0

Að sjálfsögðu kom rétt svar við gátunni og var það enginn annar en Eiður yfirveitustjóri á Margrétinni sem kom fyrstur með svarið.

Mbkv. Jón Kj.

SVH


Fréttaskot og smá gáta!!!

Þá erum við komnir á miðin og búnir að taka eitt hol. Hífðum eftir kvöldmatinn eftir að menn voru búnir að renna niður nokkrum kótilettum í boði kokksins, og reyndust vera um 350 rúmmetrar í sekknum eftir afrakstur dagsins.

 Siggi kokkur

 

 

 

Siggi er búinn að vera kokkur hér um borð í Jóni Kjartanssyni svo lengi sem elstu menn muna, fær hann sér smá kaffisopa hér á meðan rollusneiðarnar kraumuðu á pönnunni.

 

En þá að allt öðru máli, vil ég athuga hvort ekki séu einhverjir glöggir netverjar þarna úti sem þekkja eftir farandi texta, úr hvaða lagi og hver samdi?

Hjalandi eins og smábarn á dauðan hún starði.
Með afli þeir létu hana krjúpa fótum hans hjá.
Blöndal keikur stóð á hæsta garði,
og öskraði: „Bændur lítið upp, þið skuluð fá að sjá“...

Verður þetta kannski smá nýbreytni hér á síðunni að koma með svo sem eina og eina gátu fyrir ykkur.

Kv. af Jóni

SVH


Löndun afstaðin og nýr ritstjóri kominn til starfa

jæja þá er búið að dæla okkar fyrsta gulldeplufarmi í land og eru starfsmenn bræðslunnar í óða önn að búa til eins gott mjöl og mögulegt er úr þessum nýja veiðistofni. Eitthvað hefur verið rætt um á heimasíðum annarra skipa að mismikið vigtar uppúr skipum af gulldeplunni og tökum við einróma undir það, en við vorum með í 1350-1400 rúmmetrum en vigtaði aðeins 950 tonn uppúr skipinu svo þetta er að fara mjög blautt niður í lestar og ekkert hægt að lensa.

Gerðar voru smá endurbætur á trollinu á meðan löndun stóð og vonum við að þær muni skila sér vel en menn þurfa að leggja smá þróunarvinnu í þessar veiðar.

Bjarni, Stebbi og Doddi í góðum gír, hvaða sögu ætli Stéfán hafi verið að segja

Eftir að búið var að græja trollið og allar rennur komnar á sinn stað og stefnan tekin á gulldeplumið bauð kokkurinn uppá súpu og með því í hádeginu og voru sumir svo æstir í súpuna að þeir borðuðu beint uppúr pottinum!!!!Sigurjón gat ekki hamið sig

 

 

 

 

 En þá að nýja ritstjóranum, er þetta ungur Sveinn sem kemur úr nafla alheimsins, nánar tiltekið frá Húsavík og er gaman að geta þess að hann er yngsti áhafnarmeðlimurinn hér um borð þó hann nálgist fertugsaldurinn óðfluga og dragi þar með meðalaldurinn hér um borð langt niður. Lenti ritstjóri í skemmtilegu atviki er hann var á leið austur á Eskifjörð í gærkvöldi, snjókoma og skafrenningur var búin að vera alla leið og ekki skánaði veðrið er austar dróg og er komið var á N-Háreksstaðaleið bles kári stíft og sló í 17m/s og 10 stiga frost og skóf mikið, blasti þá við skrítin sjón á miðjum vegi, var þar engin önnur en Forsætisráðherrann hún Jóhanna sig í öllu sínu veldi, stoppaði nú undirritaður og tók tali af henni, tjáði hún mér að hún væri að kæla fákinn sinn sem hún var ríðandi á, því þvílík þeysireið hafði verið á henni og með áframhaldandi reið hefði fákurinn sennilega gefist upp. Var nú ritstjórinn það heppinn að vera vopnaður myndavél (þó ekki eins vel vopnaður og Forsætisráðherrann sjálf) og fékk að smella einni mynd af henni og óskaði henni velfarnaðar í nýju starfi áður en förinni var haldið áfram á Eskifjörð.

Jóhanna Sig. Jóhanna alveg svellköld uppá örræfum!!!!

Bkv. Sveinn hinn síungi


Næsta síða »

Höfundur

Jón Kjartansson SU-111
Jón Kjartansson SU-111

Uppsjávarskip með 15 manns i áhöfn, en um borð 10 menn í hverri veiðiferð.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband