Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

Gulldeplan skal það vera.

Jújú, þá erum við hættir á kolmunna í bili og er stefnan tekin á gulldepluna. Arfaslök veiði hefur verið eftir að við komum á miðin eftir bræluna og segja gárungarnir að það séu einungis 150 tonn í lestum skipisins. Virðist svo vera að svartkjafturinn hafi synt sína leið yfir í skosku, en þess má geta að 3 íslensk vinnsluskip eru enn á miðunum og freista þess að ná einhverju í vinnsluna, eru það Aðalsteinn Jónsson SU, Guðmundur VE og Hákon EA.

Við tókum okkur landfestu í Torshavn á meðan brælan gekk yfir. Fórum við á bæjarrölt á laugardagskvöldinu og kíktum á lífið. Var ákveðið að skella sér inn á bar sem heitir La Terasse og styrkja gott málefni, en þar var einmitt styrktartónleikar fyrir íbúa á hamfarasvæðinu á Haíti, og komu fremstu tónlistarmenn Færeyinga þar fram. Var það mjög svo góð skemmtun hjá frændum okkar Færeyingum. Héldum við svo til hafs á ný miðjan dag á sunnudeginum eftir smá viðgerðir aftur á gálga, tóku menn eftir í þann mund er verið var að sleppa landfestum að kapalbyssan var að brotna niður og þurfti nú að gera við það áður en verra hlytist af.

 Torshavn

Séð yfir smábáta höfnina í Torshavn.

Ekki veit ég nákvæmlega hvenær við verðum í landi en verður það líklega ekki fyrr en í nótt.

Þar til næst.

Kv. Jón Kj.

SVH


BRÆLA

Já sælt veri fólkið, eins og fyrirsögnin ber með sér, þá er búið að vera bræla hjá okkur alveg síðan við fórum út. Var slegið í klárinn á fimmtudagskvöld eftir hreint sagt mjög svo langa löndun hjá okkur. Var eins og kolmunninn vildi engan veginn koma uppúr lestum skipsins og engu líkara nema honum hafi líkað það vel við sérvalda meðferðina sem hann fékk hjá kælimeisturum skipsins. Herma fregnir að sjaldan eða aldrei hafi komið eins ferskur kolmunnaafli til Eskifjarðar, hefur þetta sett gæðastig á hærra plan, flokkast þetta í hágæðamjöl++.

Liggjum við nú í vari við Færeyjar og bíðum af okkur mesta óveðrið, svona til glöggvunar set ég inn myndir af útsýninu sem kapteinninn hafði í dag á leið yfir hafið, ekki eru gæðin góð þar sem ekki þótti ráðlegt að opna glugga né fara út til að smella af myndum, eru þær teknar út um brúargluggann.

Bræla

 

Fjórir ferskir menn komu um borð nú og fjórir fóru í land, náðist mynd af tveimur þessum fersku í dag og voru þeir komnir í sínar hefðbundnu stellingar fyrir komandi átök. En auk þeirra kom Óðinn Leifs og Atli Eskfirðingur um borð. Bjóðum við Atla sérstaklega velkominn.

Eitthvað er nú dagsetningin á myndunum í einhverju rugli en er myndasmiður búinn að kippa því í laginn. Þeir sem fóru í land voru Hjálmar yfirstýrimaður, Doddi maskínustjóri, Bjarni lestarstjóri og aldursforsetinn hann Sjonni, lenti sá síðast nefndi í því leiðinda atviki í byrjun síðasta túrs að slasa sig, lét hann ekki þar við sitja heldur kláraði túrinn eins og ekkert hefði ískorist, kom í ljós að kappinn var puttabrotinn, sendum við honum bestu bata kveðjur.

Þar til næst.

Kv. Jón Kj.

SVH


1.túr ársins að enda kominn

Já allt tekur nú enda og er þessi túr ekkert undanskilið við það. Fengum við ríflega 300 tonn í síðasta hali og erum við með um 1800 tonn í bátnum, siglum við hraðbyri á Eskifjörðinn og verðum við þar seinnipart á morgun.

Æðsti strumpur hér um borð átti afmæli í gær og sendum við honum að sjálfsögðu bestu "síðbúnu" kveðjur í tilefni dagsins. Hafði hann á orði að fáir, ef einhverjir, litu jafn vel út og hann á þessum aldri. Setjum "Like" á það!!!!! en er hann einungis rétt svo 50+ ára. Bakaði kokkurinn köku og útbjó heitan rétt í tilefni afmælisins.

 

 

 

Hér er svo afmælisbarnið að taka á móti öllum kveðjum af facebook síðu sinni, en þess má geta að hann á mjög svo stóran vinahóp þar og er mjög vinsæll.

 

Látum þetta duga í bili.

Þar til næst.

Kv. Jón Kj.

SVH


Önnur færsla ársins....

...þó fyrr hefði verið, en síðuritari hefur verið undir mikilli pressu frá sumum skipverjum að koma með blogg, þetta gangi ekki svona, taka að sér þetta mikilvæga hlutverk sem bloggið er og ekkert gerist síðan, túrinn farinn að síga á seinni hlutann og bara ein færsla komin og engar fréttir. Var síðuritari búinn að peppa sig upp framan við tölvuna og ætlaði aldeilis að koma með fréttir, en kvissbassbúmm, enginn veraldarvefur til staðar, en horfir þetta nú allt til betri vegar eftir mikla leit að vefnum.

Það sem á daga okkar hefur drifið undanfarið er að veiðarnar fóru rólega af stað hjá okkur, byrjuðum við að fá ein 200 tonn í fyrsta hali, og svo aftur 200 næsta dag og þriðja daginn endurtókum við leikinn enn einusinni og snöruðum 200 tonnum inn fyrir. Af því tilefni að 600 tonn voru komin um borð og nærri ár og aldir liðnar að svo mikill afli hefur verið í skipinu ákvað yfirbrytinn að slá til veislu, dró hann fram grillið og dustaði mesta rykið af því (afgangnum brenndi hann af). Grillaði hann þessar fínu svínasteikur og er óhætt að segja að þar var engin svínaflensa 2009 á ferð.

Nýja árið leggst eitthvað þungt í toppstykkin hjá okkur, er einhver mikill hausverkur þar á ferð, en bæði höfuðlínustykkin okkar hafa bilað í túrnum, hafa þau verið send bæði til sálfræðings og geðlæknis en ekkert gerist. Voru þeir þá á syninum okkar svo góðfúsir að lána okkur eitt stykki og hefur það sko aldeilis ekki brugðist. Spurning um hvort hægt væri að nota það til að skoða í toppstykkin þarna í HSA.........? Kunnum við strákunum á Allanum bestu þakkir.

Í gær, laugardag, fengum við svo tilkynningu um að von væri á gestum til okkar, var þar á ferð skipverjar af Ejnar Mikkelsen, varðskipsmenn hennar hátignar Margrétar Danadrottningar. Vildu þeir endilega koma og kíkja á bókhald, veiðarfæri, öryggisbúnað og fleira hjá okkur. Var nú híft svo þeir gætu framkvæmt mælingar á pokanum hjá okkur og viti menn, komu 300 tonn upp úr honun. Að sjálfsögðu stóðust allar stærðir og mælingar á veiðarfærum og ekkert fannst að bókhaldi hjá okkur eins og vísa ber.

 

 

 

 

 

Varðskipsmennirnir komnir að skipshlið....

 

 pict0341_950667.jpg

 

 

 .......og alla leið uppí brú

 

 

 

Kokkurinn eldaði haugskítuga hammara í hádeginu í dag með frönskum og alles. Djúpsteikingarpotturinn var ekki alveg sáttur með fröllurnar sem hann fékk ofan í sig og tók upp á því að æla svo flæddi út um hólf og gólf. Við nánari skoðun kom í ljós að utan á frönskupokanum stóð "Made in Holland". Var svo híft er menn voru búnir að liggja vel á meltunni og pumpuðum 300+ tonnum í bátinn. Voru svo gerð góð skil á sunnudagasteikinni, var þar afturhásing af fjárbúnaði á borðum, skolað niður með blöndu minni og blöndu þinni, og svona til að fylla upp í öll hólf örugglega, gæddu menn sér á frosinni rjómablöndu með tilheyrandi útí á eftir.

Þar til næst.

kv. Jón Kj.

SVH


Við óskum lesendum síðunnar okkar og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þökkum fyrir árið sem var að líða.

En af okkur er það að frétta að við erum byrjaðir í fyrsta túr ársins, erum við staddir suður af Færeyjum að reyna við kolmunnann, slökuðum trollinu í faðm Ægis árla morguns og gekk það allt snurðulaust fyrir sig. Er það svo verk Hjálmars yfirstýrimanns að snara fyrstu svartkjöftunum á þessu ári í sekkinn og vonum við að hann verði búinn að raða inn svo sem einum og einum nema áður en kapteinn Grétar kemur á stjórnpall og tekur við.

Menn koma góðir undan jólunum og enginn virðist hafa lent í jólakettinum ógurlega, hafa menn nærst vel um hátíðarnar og er það gott.

Þar til næst.

Kv. Jón Kj.

SVH


Höfundur

Jón Kjartansson SU-111
Jón Kjartansson SU-111

Uppsjávarskip með 15 manns i áhöfn, en um borð 10 menn í hverri veiðiferð.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband