Leita í fréttum mbl.is

Landleið

Þá eru kallarnir komnir á landstím eftir öflugan endasprett í baráttunni við svartkjaftinn. Erum við með um 2000 tonn af úrvals hráefni, þar sem allur afli er nú kældur á landleið og reikna menn að úr komi algjört hágæða mjöl úr þessum afla. Er nú áætluð lending á Eskifirði um miðja nótt í nótt, er þetta jafnframt okkar næst síðasti túr þar sem kvótinn er að vera uppurinn.

Kolmunnamið að baki Þaðan komum við....

Framundan ....og þangað stefnum við.

Leikur Man Utd og Arsenal í meistaradeildinni stendur yfir í þessum skrifuðu orðum og taka sumir andköf meðan heyrist í öðrum jessss!!!!!

Þar til næst.

Kv. Jón Kj.

SVH


Fréttasull

Sælt veri fólkið, af okkur á Sulla er það að frétta að menn hafa mikið verið að spekúlera ný afstaðnar kosningar, eru menn ekki á eitt sáttir með úrslitin, eru allar líkur á að hér verði mynduð vinstri stjórn með Skallagrím og Jóku gömlu í broddi fylkingar. Íhaldið galt afhroð og eru algjörlega vængbrotnir og það á báðum eftir þessar kosningar, þurfa menn að fara hugsa sinn gang þar á bæ, en framsóknarmennirnir, og konur að sjálfsögðu líka, stóðu sig vel og sækja í sig veðrið. Eitt bar þó af í kosningabaráttunni að mér finnst, þ.e. þegar ágætur frambjóðandi Borgarahreyfingarinnar, sem er NB kominn á þing, kom með lausn á kvótakerfinu, vildi hann láta almenning hafa kvótann, svo hann (almenningur) geti selt hann!!!! hvað er maðurinn að meina spyr ég. Eigum við ekki bara að prenta peningana eins og Kaninn gerði?

Kokkurinn okkar átti stórafmæli í gær (mánudag) er hann varð hálfrar aldar gamall, sendum við honum okkar bestu óskir í tilefni dagsins og vonum að hann hafi notið hans vel.

Með Winston í kjafti

 

 

 Hér er svo mynd af kokkinum, honum Sigga, með sígó í munni þar sem stund á milli stríða gafst í einu hífoppinu.

 

En að allt öðru, þ.e. skútumálinu mikla, hvíslaði að mér lítill fugl er varðskipið Týr kom með smyglskútuna til Eskifjarðar sl. þriðjudag hafi fólk flykkst að niður á kaja til að fylgjast með. Var hafnarvörðurinn, í sínu fínasta uniformi, búinn að girða bryggjunna af eins og lög kveða á um og varna að óviðkomandi kæmust ekki nær. Var einn skipverji okkar mættur á staðinn til að fylgjast með og var ágangurinn það mikill að hruflaðist hann á nefinu við að rína í gegnum girðinguna. Ekki er gefið upp hver maðurinn er en ætti hann þó að þekkjast ef menn rekast á hann á Eskifirði.

Eitthvað hefur veiðin verið að glæðast og er svo komið að farið er að síga á seinnihluta þessarar veiðiferðar. Var veðrið með eindæmum gott í gær og er undirritaður var að sinna reglulegu viðhaldi og vippaði sér uppá brúarþak til að kanna ástand rafgeyma brá honum heldur betur í brún. Var Óðinn Leifsson mættur þar í öllu sínu veldi, á brókinni einni saman, sleikjandi sólina. Hélt maskínu stjóri ótrauður áfram og er hann kom fyrir mastrið, blasti við honum enn önnur sýn, var Hreggviður einnig mættur uppá brúarþak, sömuleiðis á brókinni, í sólbað. Eru þeir orðnir súkkulaðibrúnir eftir viðdvölina. Ekki þykir við hæfi að koma með myndir af þeim félögum, þar sem sakleysingjar vilja oft ramba inn á síðuna okkar.

Þar til næst.

kv. Jón Kj.

SVH


Kosningadagurinn

Góðan daginn góðir hálsar, nú er kosningardagurinn mikli að renna upp, hvetjum við alla landsmenn að fara í sitt fínasta púss, mæta á kjörstað og kjósa sinn flokk. Má svo kíkja á kosningaskrifstofu og þiggja svo sem einn kaffibolla og skeggræða málin við frambjóðendur hvað má betur fara og hvað ekki. Muna verður bara að kjósa rétt, þ.e.a.s. Íhaldið eða gamla góða framsóknarflokkinn, eru þessir tveir flokkar í hávegum hafðir hér um borð, ekki meir um það í bili.

Blíðuveður var á bleyðunni hér á Færeyjarmiðum í gær og ákvað undirritaður að taka smá göngutúr um skipið, rakst hann fljótt á starfsbræður sína að bardúsa eitthvað við fiskidæluna, voru þeir að sinna fyrirbyggjandi viðhaldi á henni svo hún væri klár í flestan sjó, hvort sem færeyskan eða annan.

 Guðni og Böbbi við 18 tommuna

Bjarni Aston Villa maðurYfirlestarstjóri skipsins, Bjarni Kristjánsson, var að vafra um á veraldarvefnum, skoða síðustu kannanir fyrir kosningar og fylgjast með fylgi síns flokks á lokasprettinum. Þess má geta að hann er vel að titlinum kominn, yfirlestarstjóri, hóf hann störf hér á skipinu árið 1984 og er hét Eldborg, þekkir hann því hvern krók og kima hér um borð og má segja hann sé eitt af húsgögnunum hér.

 

Horfðu til himinsHreggviður Friðbergsson var lárréttur að vanda og bað til Guðs um að sinn flokkur mundi sækja á í kosningunum. Er hann mikill hestamaður og þykir fátt skemmtilegra en að ríða út. Á hann eina fjóra hesta sem hver er öðrum glæsilegri og segja gárungarnir að þeir kunni 8 gangstíg!!!! Og að sjálfsögðu verður það að koma fram að hann á bróður sem búsettur er í nafla alheimsins, gömlu góðu vík, kennda við Hús. Er hann einnig mikill hestamaður, spurning hvort einhverjir sveitungar mínir viti hver maðurinn er?

Híft var eftir að menn höfðu hlýtt á formenn stjórnmálaflokkanna í sjónvarpinu í gærkveldi, höfðum við ekki úr miklu að moða í þeim efnum og virðist svartkjafturinn eitthvað sitja á sér í þeim málum, var afrakstur dagsins 180 tonn og er því komin 480 tonn í lestar skipsins. Þó dælan hafi ekki staldrað lengi við í sjónum í þetta skipti gafst samt smá tími til að ræða hin brýnustu mál sem herja á þjóðina, var ESB, kvótinn og drekasvæðið engin undantekning og hvernig Ísland stæði eftir Viltu í nefið viltu í nefið vinur minnkosningar, fáum við vinstri stjórn þar sem annar flokkurinn horfir suður en hinn norður og niður? Það er spurning. 

Fékk Hjálmar yfirstýrimaður sér vel í nefið yfir samræðunum, má geta þess líkum að hann hafi kosið mág sinn í kosningunum.

 

Gítaristinn um borðRagnar stýrimaður kom með nýja strengi í gítarinn sinn og er búinn að skipta um og stilla þá fyrir kosningavökuna í kvöld og verður nú spilað og sungið langt fram á nótt, eins og íslenskum sjómönnum sæmir, á milli þess sem fylgst verður með nýjustu tölum úr kjördæmum.

Þar til næst

kv. Jón Kj.

SVH


Gleðilegt sumar...

...lesendur góðir, nær og fjær, og takk fyrir veturinn. Þá er sumardagurinn fyrsti runninn upp, fraus sumar og vetur saman, svo við má búast góðu veðri á klakanum í sumar. Vöknuðu menn hinir hressustu í morgun þennan fyrsta sumardag er við vorum komnir á miðin og var trollinu slakað í færeyskan sjó. Vel hefur farið á milli Liverpool manna og Arsenal manna hér um borð eftir stórleik þessara liða á þriðjudagskvöld s.l. endaði hann með jafntefli 4-4 og voru menn þokkalega sáttir við þau úrslit, en Liverpool átti skilið að vinna að mér finnst, þó ekki væri nema til að halda í við Manchester, en fátt virðist ætla að stöðva þá að þeir verði meistarar en ekki er öll von úti enn og eiga mínir menn enn sjéns og höldum við í vonina.

Þar til næst

kv. Jón kj.

SVH


Á landleið með hálffermi og vélarbilun.

Höfðum tekið 3 höl sem gáfu 330-430-400 tonn eftir 11-15 tíma tog. Þegar verið var að hífa síðasta halið kom í ljós að tengi milli ásrafals og vélar var farið, og skipið þar af leiðandi rafmagnslítið. Ljósavél sett í gang og haldið til hafnar, ekkert annað hægt í stöðunni. Verið er að leita að þessu tengi og voru menn vongóðir um að það fengist í Danmörku eða Þýskalandi, en það hefur ekki fengist staðfest ennþá. Ef þarf að smíða tengið tekur það um 5 daga.

Meistaradeildin í gær og i kvöld, mikil spenna, sumir glöddust í gær en aðrir ekki, sama verður í kvöld, einhverjir gleðjast en aðrir fara í fýlu. Mikið hefur verið skrifað um leikina á facebook og merkilegt  hvað margir Liverpool menn eru ánægðir með sína menn og segjast hafa fallið út með sæmd.


Haldið til hafs og gleðilega páska.

Mætt var til skips kl 1300. Komu þá tveir góðir gestir um borð frambjóðendurnir Tryggvi Þór annar, og Jens Garðar sjötti. Var þeim boðið upp á kaffi, héldu þeir síðan smá tölu yfir mannskapnum, sem fór misvel í menn, sumir urðu æstir mjög en flestir voru rólegir. Frambjóðendur mættu gera meira af því að koma um borð í skip og ræða við menn, jú því skip er víst vinnustaður.

Stefnt er á kolmunamið suðvestur af Færeyjum og áætluð lending þar eftir hádegi á morgun. Deilt hefur verið út páskaeggjum á mannskapinn, og þóttu þau frekar í minni kantinum, eða no 5. Sumir höfðu reyndar með sér egg til öryggis, og heyrst hefur að Doddi og Grétar væru með þau stærstu sem framleidd eru fyrir þessa páska.

Gleðilega páska


Þá er þessi reiðileysistúr á enda.

Allt tekur nú enda og er þessi túr engin undantekning með það. Hefur þessi túr einkennst af brælum og svo leit og aftur leit. Tók svartkjafturinn á það ráð að hverfa af alþjóðlega hafsvæðinu og var flotinn ósigrandi marga daga að reyna þefa hann uppi, en allt kom fyrir ekki og ekki fannst kolmunninn svo mest allur flotinn er farinn í land, má segja, "sigraður".

Lítið fer fyrir aflanum hjá okkur, en segja lestarstjórar skipsins að um 350 tonn séu innanborðs, fór þó nokkur hluti af því í vinnsluna hjá okkur sem skrifað var um í síðustu færslu. Fer nú ritstjóri í frí í næsta túr, hvenær sem af honum verður en reikna má að eitthvað verði stoppað, koma menn í mann stað og leysa ritstjórann af. Vill ritstjórinn nota tækifærið og óska lesendum síðunnar og sjómönnum öllum gleðilegra páska.

Þar til næst.

Kv. Jón Kj.

SVH


Vinnslan í fullum gangi...

...þrátt fyrir þrálátar brælur og lítið sem ekkert fiskirí. Erum við búnir að vera á miðunum síðan á þriðjudagsmorgun og einungis höfum við bleytt í trollinu tvisvar sinnum á þeim tíma og hafa brælur verið að setja strik í reikning, höfum við verið að krussa um svæðið í allan dag, austur,vestur, norður og niður og enginn kolmunni sést á öllum þessum tæknivæddu tölvuskjám sem prýða brúna, fyrir utan þessa fjóra kolmunna sem syntu þversum undir bátinn að framanverðu klukkan 15:47 að staðartíma.

Þrátt fyrir aflaleysi hefur vinnslan gengið vel og má segja að nær allur afli sem komið hefur um borð farið í vinnsluna. Eru sjálfsagt margir að hugsa núna með sér sem lesa þetta hvaða bölvaða rugl þetta sé í ritstjóra síðunnar, vera að tala um einhverja vinnslu þar sem þetta er nú gúanóbátur og fiskar einungis í bræðslu, en nei nei, höfum við ákveðið að nú skuli fullvinna kolmunnann um borð og það allt niður í neytendapakkningar. Standa menn hér og flaka á fullu, er kolmunninn svo verkaður með sérstakri aðferð sem við kjósum að segja ekki frá, og loks þurrkaður. Er hann er orðinn vel hertur þá er honum pakkað allt niður í 100gr. neytendapakkningar. Bragðast þessi afurð okkar eins og besta sælgæti og er lítið betra en að fá sér svo sem nokkra bita til að narta í fyrir framan sjónvarpið. Er ætlunin að koma inn á harðfiskmarkaðinn með krafti og bjóða hertan kolmunna á verði sem ekki hefur sést áður í búðum, sem sagt algjört kreppuverð.

Kongóbúinn að hengja uppHér sést Stéfán vera að hengja upp flökin og vildi hann koma því á framfæri að mikil not væru í grillinu sem þarna sést undir segli, gat hann notað það sem vinnuborð rétt á meðan var verið að hengja upp fiskinn.

KolmunniHér má svo líta á afurðirnar á ýmsum stigum ferilsins, ný búið að hengja upp og annað bíður eftir að verði pakkað.

Ef menn vilja leggja inn pöntun þá er bara um að gera skrifa í athugasemdir og við höfum samband.

Heyrst hefur að veiðin hér á Rockall sé búin og menn farnir að líta á "gráa svæðið" sem næsta viðkomustað, en ætla ég alls ekki selja það dýrara en ég stal því og fáið þið þetta algjörlega frítt. Eru menn orðnir "desperate" og heyrist muldrað í mörgum "we have to kill something"!!!

Þar til næst.

Jón Kj.

SVH


Jæææjja

Þetta er allt saman samsæri (samsæer) punktur.

13-1 hjá mínum mönnum í síðustu þrem leikjum sem er að sjálfsögðu Liverpool, gott mál það.

Uppþvottavélin staldraði stutt við.

Bræla á miðunum.

Ísland tapaði fyrir Færeyingum (kokkurinn ánægður).

Sjónvarpskúlan biluð.

Óvíst hvenær næstu fréttir koma þar sem umferð á síðuna hefur stóraukist erlendis frá, er Noregur þar efst á blaði og fylgjast grannt með.

Þar til næst (ef það verður).

Bkv. Jón Kj.

SVH

 


Á Eskifjörð stefnum vér

Þá erum við komnir á landstím, hífðum við á fimmtudagskvöld og fylltum á það sem vantaði, var kominn kaldaskítur er híft var og vinnuaðstæður all erfiðar úti á dekki þar sem Ægir sýndi okkur mátt sinn hvað eftir annað. Eftir að búið var að gera sjóklárt og menn komnir inn hverjum sjóblautari eftir hvorum öðrum var fjölmennt í sturtu til að skola mesta saltið af sér. Skrúbbuðu menn bakið á hvorum öðrum og voru hin ýmsu mál skeggrædd á meðan. Barst talið m.a. að sjóböðum, sem virðast vera "inni" í dag, komumst við að því að þau eru bæði sál og líkama mjög holl, stunda menn þessi sjóböð m.a. í Nauthólsvík, en teljum við að þau séu mun hollari hér úti á rúmsjó en í fjöruborðinu.

En að allt öðru, er hér ein mynd að Guðrúnu Þorkelsdóttur, ex Jón Kjartansson, nú Lundey NS, sem ég tók árið 2006. Þarna vorum við á leið í land með barmafullt skip af kolmunna sem við fengum á Rockall. Mættum við henni og lánuðum þeim eitt stykki poka á trollið svona til vara vara ef illa færi hjá þeim. Er það eitt vandamálið þegar kolmunninn er veiddur hér í suðrænum sjó og verið er að hífa, að sprengja ekki pokann. Þarf mikla lægni við að ná honum réttum upp en ekki upp á endann. Þess má til gamans geta að allmargir Húsvíkingar starfa þarna um borð og hafa þeir m.a. hertekið vélarrúmið. Er þar er hæðst ráðandi Börkur Kjartansson fyrrum vinnufélagi minn, Guðlaugur Rúnar skólafélagi minn úr Vélskólanum, sjálfur heildsalinn Guðmundur Vilhjálmsson og síðast en ekki síst, gamli reynsluboltinn, Júlíus Jónasson, var hann lengi vel vélstjóri á Björgu Jónsdóttur ÞH. Sendum þeim og allri áhöfninni bestu kveðjur.

Guðrún Þorkelsdóttir

Einn úr áhöfninni á Lundey var um borð (nánast pottþéttur:)) er þessi mynd var tekin, spyr ég nú, hver er maðurinn?

Kv. Jón Kj.

SVH


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Kjartansson SU-111
Jón Kjartansson SU-111

Uppsjávarskip með 15 manns i áhöfn, en um borð 10 menn í hverri veiðiferð.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband