Leita í fréttum mbl.is

Loksins smá fréttir af aflabrögðum...

...og kominn tími til. Erum búnir að snara um 1.650.000 kg. af svartkjafti um borð og hefur bara gengið vel, fyrir utan smá rifrildi á trolli, var þá ekkert annað en að slá hinu undir og hefur fiskað ágætlega í það. Veðrið hefur leikið við okkur þennan túrinn, er það eitthvað annað en menn eiga að venjast, á þessum stað og þessum árstíma, er þetta sannkallað veðrahelvíti þar sem hver lægðin á eftir annarri fer hér hjá. Getur þetta tekið á taugar manna svo um munar en er það nú aldeilis ekki hjá okkur á Sulla. Sævar átti afmæli á þriðjudaginn og óskum við áhöfnin honum til hamingju með daginn, tökum ekki fram hversu gamall hann var.

Þokkalega heilbrigður þarna!!!

Læt ég fylgja hérna eina mynd að afmælisbarninu, var kokkurinn með eitt af því betra sem maður fær í matinn, það er mauksoðið íslenskt fé með Indverja og svo að sjálfsögðu kjötsúpu, var þessu gerð góð skil.

Annars eru allir hér með besta hesta heilsu, þangað til næst.

kv. Jón Kj.

SVH

 


Komnir á miðin og búið að kasta

Góðan og blessaðan daginn netverjar góðir, vorum að renna trollinu í hafið eftir tveggja sólarhringa stím frá Eskifirði, virðist kolmunninn vera að færa sig norðar, erum við nú staddir 550 sjómílur frá Eskifirði en vorum um og yfir 700 mílur frá firðinum í fyrsta túrnum eftir að við hættum gulldepluveiðunum.

Þeir félagar Bjarni, Sigurrjón, Hjálmar yfirstýrimaður og Böbbi vélstjóri fóru í land eftir síðasta túr og komu að sjálfsögðu ferskir menn í þeirra stað, Sævar sleðakall, Óðinn ferðalangur, Stebbi Ghana búi og Þorsteinn maskínustjóri. Má geta þess að Óðinn fór tvisvar sinnum yfir á Búðareyri í fríinu sínu og Stéfán er víst kominn undan Ghana manni sem flúði undan þrældómi fyrir 200 árum og endaði á Djúpavogi. Kokkurinn fékk nýja uppþvottavél í inniverunni og hafa allir vélstjórarnir klórað sér í hausnum yfir því hvernig eigi að tengja þessa ofursúpermaskínu, því enginn tengill er nógu öflugur fyrir slíka vél í skipinu, hafa maskínustjórar eftir miklar pælingar fundið út að leggja þurfi nýjan stofn, allt frá rafala og upp í eldhús, og þýðir ekkert minna en 100 Amper. Guðni yfirkjölsvín er með Dodda í ströngu aðhaldi og lætur hann hlaupa fram og til baka um allt skip, fréttist það að Doddi hafi verið að pulsa sig heldur betur upp á Bæjarins Besta er hann var í borg óttans í fríinu.

Heitasta æðið hér um borð þessa stundina er facebook-in og eru menn á öllum stundum að eignast nýja og nýja vini, er maður ekki maður með mönnum nema fá sér svo sem eitt andlit, og játar undirritaður hér og nú að hann sé kominn með eitt slíkt, hvað sem hann ætlar að gera svo við það.

kapteinninn á facebook?

 

 

 

 

 

 Hér er Kapteinn Grétar að skoða fésbókina sína og má til gamans geta að hann á orðið nokkur hundruð vini enda vinsæll maður þar á ferð.

Hefur Stéfán Ghana búi lýst undrun sinni á allri þessari vitleysu sem fésbókin er, er þá bara spurning hvort ekki eigi að stofna félagasamtök á facebook, "Stéfán Þór Kjartansson á facebook". Væri gaman að fá svo sem nokkur komment um það.

Þangað til næst, strákarnir á facebook-inu, og Jóni Kjartans.

SVH


Í landi.....

...með morgninum. Þá er þessi túr að enda kominn, höfum við fengið alveg fínasta veður á leiðinni og gengið vel. Lestarstjóri segir að ríflega 2000 tonn hafi runnið í lestarnar í þessum túrnum og þetta hafi verið eðal kolmunni sem hafi fengist, hafa sumir hér um borð verkað kolmunnann eins og harðfisk og borið þar með björg í bú, bragðast hann eins og besta sælgæti.

Mikil spenna ríkti hér á miðvikudagskvöld er Arsenal heimsótti Roma heim í Meistaradeildinni, ekki varð nú spennan minni er ljóst var að það færi í vítaspyrnukeppni. Var þetta hin besta skemmtun að horfa á og voru Arsenalaðdáendur hér kampakátir með sína menn eftir þessa æsi spennandi keppni.

Kv. Jón Kj.

SVH


Ágætis veiði hjá köllunum

Já það var eins og við manninn mælt, er þeir félagar Kári og Ægir fóru að sýna okkur smá miskunn eftir mikinn brælublús um helgina, fór Korlákur svartkjaftur að gefa sig, var ákveðið að nú skildi fram sækja og vera snöggir að safna í bátinn, hafa starfsmenn í brú staðið sig með ágætum í þeim málum. Liggja 2000 tonn í valnum eftir þennan sóknarleik, má líkja þessu við leik minna manna, Liverpool, er þeir fengu Real Madrid í heimsókn í gærkvöldi, var það algjör smánum þar á ferð. Efast ég ekki um að risið sé býsna lágt, ef það er þá eitthvað, á Madrídarbúum þessa stundina, verður gaman að heyra hvað meistari Kristinn R. Ólafsson les úr spænsku pressunni.

Þangað til næst, verið þið sæl og blessuð.

Jón Kj.

SVH


"Hvað er að frétta?"

Já hjá okkur Sulla strákum er akkúrat ekkert að frétta þessa stundina, algjört núll og nix, ja ekki nema að Arsenal vann í dag og voru 2/3 hlutar starfsmanna á stjórnpalli, þ.e.a.s. kapteinn Grétar og Hjálmar yfirstýrimaður, mjög ánægðir með sína menn. ManUtd. menn hér um borð ganga um á skýjum eftir leik þeirra manna í gær en við Liverpool menn erum orðnir heldur spenntir eftir leik okkar manna við spanjólana frá Madrid sem fer fram á þriðjudag.

Brælu skítur er búinn að vera í dag og gær og höfum við því haft hægt um okkur þennan tíma, menn hafa reynt að skorða sig á hinum ýmsum stöðum til að rúlla ekki upp og niður síður, fram og til baka, sást til sumra vera komna ofan í skúffu undir koju hjá sér, aðrir tróðu sér í skápana í stakkageymslunni og sá sem þetta ritar lét straffa sig niður í tölvustólinn svo hann gæti ritað einhver orð hér á síðuna. Erum við komnir með 700 tonns eftir að híft var í gærmorgun.

Upp á ölduna lyftir hann sér...

d_documents_and_settings_administrator_my_documents_jon_kjartansson_myndir_inn_svenni_002.jpg...og niður aftur í öldudalinn...

..réttir sig af og er klár í næstu törn.

En svona er þetta búið að vera hjá okkur um helgina og vonandi fer hann Ægir félagi okkar að sýna smá miskunn svo við getum nú haldið áfram að fiska og aflað smá gjaldeyri.

Kv. Jón Kj.

SVH


Hver er manneskjan?

Þá erum við búnir að láta trollið fara í annað sinn í hafið, köstuðum seinnipart fimmtudags og var híft aftur í gærmorgun, var þá komið skítaveður og bræla, pumpuðum 400 tonnum af svartkjaftinum um borð. Var Ægir ekki fallegur á að líta í gærdag og höfðum við því hægt um okkur, en er kvölda fór í gærkvöldi fór hann að sína okkur smá miskunn og var ákveðið að trollið skildi í hafið fara og erum við á toginu í þessum skrifuðu orðum. Tók ég stutt spjall við Hjálmar yfirstýrimann og tjáði hann að lítið væri um að vera, "bölvaður skakstur og lítil innkoma" en 3 neminn hafi verið rauður áðan en breytt sér svo aftur í fagurgrænan framsóknarlit og virðist líka hann vel.

En þá að allt allt öðru, eins og kunnugt er þá vorum við í slipp í Reykjavík s.l. haust og var nóg að gera í handraðanum þar við hinar ýmsu endurbætur og fleira. Var okkur vélaliðinu og Stéfáni stýrimanni boðið í stórfenglegt matarboð til yndislegra hjóna á höfuðborgarsvæðinu. Er frúin á heimilinu í miklu uppáhaldi hjá Stéfáni en hún hefur lesið sig inn í hug og hjarta okkar Íslendinga með sinni einskærri rödd á undanförnum áratugum.
stebbidjup

Spyr ég nú, hvað heitir þessi ástsæla kona og hvaða þætti stýrir hún í útvarpinu?

Viljum við senda þeim skötuhjúum okkar bestu óskir og þökkum enn og aftur fyrir frábæran mat og yndislega kvöldstund í september sl.

Kv. Jón Kj.

SVH


"Óbyggðirnar kalla"

Þá er ritstjórinn aftur mættur til starfa eftir eins túrs frí sem var mjög kærkomið, og vill hann þakka aðstoðarritstjóra síðunnar fyrir vel unnin störf á meðan fríinu stóð. Við fórum út frá Eskifirði á þriðjudagskvöld eftir að hafa landað 2330 tonnum af svartkjaftinum og var svo einnig viðgerðarstopp eftir löndun og var því nóg að gera hjá maskínustjórum þessa inniveruna. Það er búið að vera þó nokkur veltingur á leiðinni og barasta skítabræla, en sem betur fer erum við á suðurleið í heitari sjó og fáum þetta í afturendann á okkur en ekki beint framan í nefið.

Mývatnssveit

Það var fallegt um að lítast í Mývatnssveit er ritstjóri var þar á ferð, sunnan vindur, sól og frost. Eins skartaði hálendið sínu fegursta og nýtti maður sér það og smellti af nokkrum myndum á leiðinni.

Herðubreið

 

Drottning íslenskra fjalla, sjálf Herðubreið, var stórfengleg að líta, hulin skýjatoppi.

Fjöllin sem eru í forgrunni eru svo Fremri-Grímsstaðanúpur.

 

 

 

 

 

Jökuldalsheiði

016

Það er mikill snjór á hálendinu og hafa fjórfetlingar og önnur dýr úr litlu að moða, keyrði ritstjóri fram á þessa myndar hreindýrahjörð við Brúarháls, sum voru að kroppa í á meðan önnur lágu í makindum sínum og létu sig ekki trufla þótt stoppað væri og smellt af einni mynd.

Kv. Jón Kj.

SVH


Á siglignu til Eskifjarðar.

Lagt var af stað heim á leið í morgun með fullfermi af kolmuna 2370 tonn sem fékkst í 6 hölum. Reiknimeistarar segja að trollið hafi verið í sjó í 36 tíma. Erum væntanlegir til Eskifjarðar á laugardagsmorgun. Veður er ágætt núna á heimsiglingunni SV 15 m/s og hálfgert lens.

Lítið hefur farið fyrir sparkspeki í dag, Doddi er ánægður með sína menn og má vera það enda ekki á hverjum degi sem lið koma til Madridar og vinna leik. Menn tóku samt eftir því að hann byrjaði að horfa einn í sínum klefa, en birtist fljótlega eftir að Púllarar skoruðu.

Picture 225


Góður afli

Erum búnir að taka 4 höl síðan við komum hér á slóðina vestur af Írlandi, afli hefur verið með ágætum í fyrsta hali voru 180 tonn svo 570 svo komu 700 og síðast 400 tonn sem gera 1850 tonn. Vegalengd héðan til Eskifjarða um 680 sml. Erum að toga núna í blíðu veðri V 8-10 m/s.

Menn bíða spenntir ef leikjum kvöldsins í meistaradeildinni, en aðeins eitt lið hafði sigur í gærkvöldi og það var lið þeirra sem í brúnni eru. menn vonast til að Liverpoolklúbburinn bjóði upp á veitingar á meðan á leik stendur og trúa ekki öðru en að formaðurinn Doddi verði með eitthvað.  Guðni yfirmeistari ætlar að styðja Liverpool og Dodda í kvöld en aðrir standa sennilega með Real Madrid.

góður sekkur


650 sjómílur að baki.

Og enn ekki komnir á kolmunaslóð, 30-70 sml enn eftir en þar er farið að sjást í Rússa og Hollendinga. Veður hefur verið að batna til muna en um tíma þurftum við að halda sjó í SV 20-30 m/s. Erum nú komnir í hina mestu blíðu S 4 m/s, og það hefur hlýnað til mikið. Ekki sést til sólar enn en vonandi kemur sólarglæta svo að Sjonni og Óðinn sóldýrkendur geti baðað sig í sólinni ein og þeirra er vani. Sveinn bloggritari okkar er í landi þennan túr, en við reynum að fylla hans skarð í skrifum þó erfitt reynist að fara í hans spor, enda Húsvíkingur með blogggenin í lagi eins og aðrir Húsvíkingar sem blogg á síðum hinna skipana.

dsc03729


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Kjartansson SU-111
Jón Kjartansson SU-111

Uppsjávarskip með 15 manns i áhöfn, en um borð 10 menn í hverri veiðiferð.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband