Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009

Snöggur endasprettur

Þá er þessum túr að ljúka, áttum við góðan endasprett og var dagurinn í gær hreint alveg magnaður, uppskárum við vel á áttundahundraðtonnið í tveim holum og vorum við komnir með í kælinguna eftir þau. Var því gert sjóklárt og stefnan tekin á fjörðinn fagra sem kenndur er við Eski. Er áætluð lending snemma í fyrramáli.

Sævar kokkur halaði inn margamarga punkta í gærkvöld, tendraði hann upp í grillinu og skellti einhverjum tugum kótilettum á það, sem runnu ljúflega niður í mannskapinn. Voru bornar fram ofnsteiktar kartöflur, guðdómlegt salat a´la sæsi og fl. með kjötinu. Máttu menn hafa sig alla við við að standa upp frá borðinu því eitthvað var belgurinn farinn að taka í.

Ekki er vitað hvenær brottför í næsta túr verður, þannig að...

...þar til næst.

kv. Jón Kj.

SVH


Ágætt gengi

Góðan og blessaðan, loksins hefur maður það af að setjast niður fyrir framan lyklaborðið og koma með einhverjar fréttir af okkur köllunum, en er ástæðan sú að ekki komu fyrr fréttir er að það var akkúrat ekkert að gerast hjá okkur í byrjun túrs. Örkuðum við norður fyrir land og ætluðum aldeilis að gera það gott þar en gripum heldur betur í tómt, og má segja að við höfum "búmmað" í fyrsta hali. Var því ákveðið að sigla aftur suður og skoða hin gjöfulu austfjarðamið. Var nú rólegt um að vera fyrst um sinn og þar að auki dálítill makríll í, horfir þetta nú allt til betri vegar og höfum við borið ágætlega úr býtum síðasta sólarhring. Telst svo til að komin eru um 1000 tonn í bátinn.

Heyrst hefur að sumir í áhöfninni séu á einhverju fylleríi, nánar tiltekið á fjárfestingafylleríi, hafa menn ýmist keypt hús á hjólum eða tæki til að draga svoleiðis. Ekki meir um það.

slappur.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þessi fjárfesti í bjór!

 

Þar til næst.

Kv. Jón Kj.

SVH

 


Mærudagar

Já sælt veri fólkið, í þessum skrifuðu erum við Sullarar að nálgast flotann ósigrandi, sem staddur er djúpt norður af Melrakkasléttu. Leystum við landfestar í nótt eftir að Tandrabergsmenn höfðu klárað að landa úr bátnum og reyndust vera 1150 tonn af hágæða síld sem við bárum að landi.

Hef ég fengið margar áskoranir um að blogga meira og jafnvel verið skorað á mig í bloggkeppni. Voru það peyjarnir á Guðmundi VE sem gerðu það. Á ég mjög erfitt verkefni fyrir höndum ef af því verður, en við lyklaborðið þar situr enginn annar en meistari Hafþór, en hann Einar frændi minn er miklu meiri meistari en hann, fer Haffi hreinlega hamförum um lyklaborðið þessa dagana og veit enginn hvar þetta endar hjá honum, nema kannski hann Einar frændi minn.

Nú stendur yfir svokallaðir sænskir dagar í Naflanum og í beinu framhaldi Mærudagar. Tekur fólk sig saman og skreytir hús sín og garða í hinum ýmsum litum sem þeim tilheyra. Eru haldnar hverfahátíðir, götupartý og boðið uppá ýmis námskeið og fleira.

Vel skreytt hús

 

 

 

 

 

 

 

 

 Hér sést svo eitt fallega skreytt hús, fékk ég þessa mynd lánaða af 640.is en þar má fylgjast með því sem fram fer um þessa hátíðardaga. Hvet ég sem flesta að renna á Víkina gömlu og skemmta sér og öðrum.

Þar til næst.

Kv. Jón Kj.

SVH


Það hafðist....

....að koma með smá fréttir, loksins loksins, af köllunum á Sulla. Hefur ritstjóri staðið undir mikilli pressu frá ýmsum aðilum, hvort sem er af sjónum eða úr landi, að koma með einhverjar fréttir. Vill ritstjóri ekki halda því fram að svo kölluð bloggleti hafi hrjáð hann heldur er hann að gera óformlega könnun á því hvort einhverjir saknar okkar eða hvað????? Eru menn hvattir til að skilja eftir eina og eina athugasemdir.

En að allt öðru, hér um borð hefur verið mikil gleði, þá aðallega hjá kongóbúanum og yfirmussamaskínumeistara, í dag, hafa menn jafnvel hoppað hæð sína í loft upp. Tilefnið? jú hitastigið komst yfir 10 gráður bæði á Eskifirði og Teigarhorni í dag, og gott betur en það, rúmar 15 gráður, takk fyrir. Kættust menn enn meira er þeir sáu að hitinn var hærri á fyrrnefndum stöðum en í nafla alheimsins, fyrir þá sem ekki vita hver nafli alheimsins er, er það að sjálfsögðu gamla góða vík, HÚSAVÍK. Er þetta í fyrsta skipti í túrnum sem hitastigið er hærra á Teigarhorni og Eskifirði en í Naflanum.

Eitthvað er nú veiðin að minnka hjá okkur og hefur verið lítið um að vera í dag, erum við búnir að hífa þrisvar sinnum og aflinn um 1050 tonn, mest megnis síld, hefur einn og einn makríll sést renna niður í lestarnar og er það ekkert til að tala um.

Þar til næst.

Kv. Jón Kj.

SVH


Stutt veiðiferð

Jæja þá erum við víst á leiðinni í land eftir mjög svo stuttan túr, en eins og alþjóð veit þá voru makrílveiðar bannaðar í gær. Náðum við að snara um 700 tonnum af makríl/síld um borð  eftir 3 hol áður en bannið  tók gildi. Vorum við komnir á miðin aðfaranótt þriðjudags eftir að hafa landað 2250 tonnum á Eskifirði og var makríllinn í miklum meiri hluta eða um 2130 tonn. Eitthvað verður stoppað eftir þennan túr en hvað lengi er ekki vitað en vonandi fer síldin að sýna sig eitthvað svo skipin geti einbeitt sér að henni.

Þar til næst.

Kv. Jón Kj.

SVH


Það er að hafast

það er nú svo en við erum komnir með um 2100 tonn og erum þar að líkindum með síðasta hol að við höldum því að strákarnir halda að það vanti ein 250 tonn en það hlýtur að hafast og er komin smá kaldi sem er skrítið eftir alla blíðviðrisdagana eða frá því við byrjunum .kv SU111

Sjómenska

DSC03911DSC03915DSC03924Jæja þá er það að segja af okkur að í gær voru hífð 70 tonn og leitað svo í austur og kastað í gærkvöldi og híft aftur í dag ein 280 tonn en í dag varð sá maður sem er búinn að vera hvað lengst á þessu skipi eða frá því þetta hét Eldborg afmæli og varð 52 ára svo að það var sett á tertur fyrir karlinn og var hann Bjarni Kristjánsson bara þokkalega sáttur með þetta og var svo grillað í kvöld .kv SU111.

Höfundur

Jón Kjartansson SU-111
Jón Kjartansson SU-111

Uppsjávarskip með 15 manns i áhöfn, en um borð 10 menn í hverri veiðiferð.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband