Leita í fréttum mbl.is

Á landleið eftir mikið bras.

Góðan og blessaðan daginn, jæja loksins hefur maður sig í það að koma með einhverjar fréttir af okkur sulla mönnum, hefur verið mjög svo rólegt yfir veiðinni hjá okkur í þessum túrnum. Á föstudaginn voru komin ein 600 tonn í bátinn og var trollið nú látið gossa í hafið seinnipart föstudags. Ekki grunuðu menn um að það tog mundi enda með algjörum hörmungum og yrði okkar síðasta tog í þessum túrnum. En í gærmorgun dundu ósköpin yfir, vorum við á beinu togi í blíðskaparveðri er önnur nýjafínadýra ofurtogtaugin slitnaði, og þar með sat það ekki, heldur slitnaði hin nýjafínadýra ofurtogtaugin líka í kjölfarið og allt veiðarfærið, frá hlerum og aftur úr, var þar með horfið og sest á botn Ægis og það á 450 faðma dýpi. Héldu menn að svo stór síldartorfa hafi lent í trollinu að taugarnar hafi gjörsamlega þanið sig til hins ýtrasta og gefist upp að lokum, því mikið lóð var undir bátnum og virtist vera á leið aftur í troll, en þá gerðist það, eins og hendi væri veifað, taugarnar slitnuðu og lóðið sem var hvarf, eins og "slökkt" hafi verið á því, telja menn fyrir víst að þarna hafi verið rússneskur njósnakafbátur sem var á hernaðaræfingu við Jan Mayen fyrir nokkru á ferðinni og rekist í taugarnar hjá okkur með fyrrgreindum afleiðingum.

Voru góð ráð dýr nú þar sem engar voru græjur hér um borð til að slæða upp trollið, komu þá peyjarnir á Huginn VE 55 okkur til bjargar, þar sem þeir lánuðu okkur sannkallaða lukku krækju og kunnum við Gylfa og hans mönnum bestu þakkir fyrir lánið á henni.

sild_068.jpg Renndum við okkur upp að Hugin, stóðu þeir klárir með lukku krækjuna handa okkur, þess má geta að þeir voru nýbúnir að dæla einum 180 tonnum af eðal góðri síld í sig þarna.

Hífðum við slæðuna yfir til okkar og gerðum hana klára á togvírinn, hófst svo slæðingin. Voru menn nú ekki vonmiklir við að sjá þetta troll nokkurn tímann aftur en samt skildi prufað. Og viti menn, í þriðju tilraun beit heldur betur á snærið hjá okkur og slæddum við upp trollið eftir að kapteinn Grétar var búinn að hringsóla yfir blettinum þar sem þetta gerðist í nokkurn tíma.

Hófst þá vinnan við að koma draslinu um borð og gekk það framar vonum, tók það aðeins um 5 tíma eftir að slæðan kom upp og trollið komið á tromluna, klárt að reima pokann frá og hlerar komnir í gálga. Já eftir allar þessar æfingar losuðum við pokann frá, hífðum hann á síðuna og dældum 200 tonnum úr honum.

sild_096.jpg Eins og sjá má fór trollið ekki alveg sína hefðbundnu leið inn á tromlu, mikið snúið og flækt, en er það nánast órifið. Verður nóg að gera hjá Stéfáni og hans mönnum hjá Egersund við að leysa úr flækjunni.

 

sild_098.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Annar hlerinn að koma upp, vafinn taugum, gröndurum og ýmsu fleiru.

 

Var nú mönnum létt að ná þessu öllu saman upp og nánast öllu heilu, gekk þetta allt saman vel fyrir sig, og framar öllum vonum. Erum við nú á leið til Eskifjarðar með 800 tonn og verðum þar eftir hádegið.

Þar til næst.

Kv. Jón Kj.

SVH


Nýr túr hafinn með fiskilöggu um borð.

   Já góðan og blessaðan daginn gott fólk, héðan af Sulla er allt fínt að frétta, vorum í landi á mánudaginn og lönduðum við 1200 tonnum, þar af var 90 tonn makríll og 85 tonn kolmunni. Gekk löndun stóráfallalaust fyrir sig, að mestu, gleymdu menn sér aðeins í gleðinni við að pumpa dýrmætum gjaldeyri í land og settu bátinn heldur mikið á hliðina og slitu þar með einn enda. Allt endaði þetta nú á besta veg og eftir smá tiltal frá vakthafandi vélstjóra, lofuðu löndunarmenn því að þetta skyldi ekki aftur gerast, menn hefðu bara verið svo ánægðir að fá okkur aftur undir löndunarkranann eftir smá frí hjá okkur, voru allir vinir að lokum.

   Erum við með um borð í þessum túr fiskilöggu, verður hún nú okkur ekki til vandræða, þar sem minnsta málið er að múta henni og það með öllum andskotanum.  Gengur það vel. Eeen að öllu gamni sleppt þurfum við ekki að hafa áhyggjur af löggunni þar sem allt er sko í bestasta standi hjá okkur, eru tveir svo mjög samviskusamir menn hér um borð sem sjá um prufur og sýnatöku. Eru það Stéfán stýrimaðurinn frá Kongó og Óðinn Leifsson prjónakall, segist Ói nú prjóna að meðaltali tvær ullarpeysur á dag er hann er í landi, hef ég nú ekki fengið þetta staðfest hjá henni Þorbjörgu.

   Það er aldrei að vita nema ég komi með mynd af löggunni hérna á síðunni, og jafnvel smá viðtal, kann nú ekki við að æða inn í klefann hans núna og smella mynd af honum, til að birta núna, þar sem hann sefur sínum væra blund. Erum við nú á toginu og eru 2 nemar komnir inn er þetta er skrifað.

Þar til næst

Kv. Jón Kj.

SVH


Bongó blíða

Sælt veri fólkið, ekki höfum við náð að halda sama gangi á veiðunum eins og við byrjuðum túrinn á, hefur síldin verið dálítið brögðótt og öllu fremur stygg, mega starfsmenn í brú hafa sig alla við við að snara síldinni í trollið og koma henni í pokann. Erum við búnir að taka 3 hol og aflinn um 800 lestir, máttum við leita í sólarhring að síldinni eftir annað holið okkar áður en við köstuðum aftur.

Dagurinn í dag er búinn að vera algjör Kongó, spegilsléttur sjór og bjart. Hafa menn nýtt sér daginn í hin ýmsu verk og fór ljósmyndari síðunnar á stjá vopnaður myndavélinni og fangaði nokkur augnablik. 

Afleysingarkokkurinn hann Bjarni er svo sannarlega að standa sig í stykkinu, hefur hann borið fram nýbakað bakkelsi með kaffinu dag eftir dag og er óhætt að segja að menn leggi ekki af í þessum túrnum.

Er kokkurinn hér að huga að bakstrinum, hvort það sé ekki allt í lagi með þetta hjá sér.

Hér svo afraksturinn "warm apple pie" og einnig tvær hendur sem tilheyra tveim góðkunningjum kokksins, skal ósagt látið hvort fleiri hafi verið búnir að fá sér bita af kökunni er þarna var komið við sögu, en spyr ég nú, hverjir eiga þessar hendur?

 Óðinn var í óðaönn að þrífa bátinn hátt og lágt er ljósmyndari rakst á hann, hér sést hann munda háþrýstibyssuna og beina henni að brúnni,  taldi hann vissara fyrir menn að flækjast ekki fyrir sér því þá ættu menn ekki bara hættu að fá all hressilegt bað heldur líka orðið fyrir húðskemmdum og jafnvel misst útlimi, svo öflug væri byssan.

 Hér sést svo undirritaður uppi á vinnuborði og þrífa hátt og lágt, ástæðan að hann skuli vera uppi á borði er sú að hann er dálítið stuttur, en það er bara í annan endann, ekki báða.

 

 

 Slóu menn upp í heljar grillveislu eftir amstur dagsins og sá Þorsteinn maskínustjóri, settur sérstakur aðstoðarmaður kokksins, um að grilla ofan í liðið. Stóð Óðinn klár á kantinum og tilbúinn að þrífa grillið eftir notkun.

Þar til næst.

Kv. Jón Kj.

SVH


Komnir á hafið á ný

Sælt verið fólkið, langt síðan síðast, höfum við á Sulla verið í býsna góðu fríi, eða frá því helgina fyrir verslunarmannahelgi. Var nú ástæðan fyrir stoppinu að blessaður makríllinn, sem við megum ekki veiða, þökk sé Jóni bé, var alltaf að flækjast fyrir okkur var því tekin sú ákvörðun að stoppa skyldi skipið þar til makríllinn væri hættur að blanda geði við síldina. Var það svo sl. sunnudagskvöld að blásið var í herlúðana og menn skildu klárir vera 13:00 á mánudegi, og nú skyldi fram sækja og fórnarlambið yrði sú norsk/íslensk ættaða síld. Er takmarkið að drepa mikið á stuttum tíma. Vorum við komnir á vígstöðvarnar í morgunsárið og lét Ragnar ofursti menn gera vopn sín klár. Hófst svo bardaginn, eftir fjögurra tíma sókn var nú ákveðið hvað mikið lægi í valnum, og viti menn, höfðum við drepið um 350 tonn af þessari fínu síld, er hún nú í sérmeðferð hjá vélamönnum skipsins, sem sjá um að hún haldist sem köldust og ferskust, er gott gengi þar á bæ.

Þar til næst.

Kv. Jón Kj.

SVH


Snöggur endasprettur

Þá er þessum túr að ljúka, áttum við góðan endasprett og var dagurinn í gær hreint alveg magnaður, uppskárum við vel á áttundahundraðtonnið í tveim holum og vorum við komnir með í kælinguna eftir þau. Var því gert sjóklárt og stefnan tekin á fjörðinn fagra sem kenndur er við Eski. Er áætluð lending snemma í fyrramáli.

Sævar kokkur halaði inn margamarga punkta í gærkvöld, tendraði hann upp í grillinu og skellti einhverjum tugum kótilettum á það, sem runnu ljúflega niður í mannskapinn. Voru bornar fram ofnsteiktar kartöflur, guðdómlegt salat a´la sæsi og fl. með kjötinu. Máttu menn hafa sig alla við við að standa upp frá borðinu því eitthvað var belgurinn farinn að taka í.

Ekki er vitað hvenær brottför í næsta túr verður, þannig að...

...þar til næst.

kv. Jón Kj.

SVH


Ágætt gengi

Góðan og blessaðan, loksins hefur maður það af að setjast niður fyrir framan lyklaborðið og koma með einhverjar fréttir af okkur köllunum, en er ástæðan sú að ekki komu fyrr fréttir er að það var akkúrat ekkert að gerast hjá okkur í byrjun túrs. Örkuðum við norður fyrir land og ætluðum aldeilis að gera það gott þar en gripum heldur betur í tómt, og má segja að við höfum "búmmað" í fyrsta hali. Var því ákveðið að sigla aftur suður og skoða hin gjöfulu austfjarðamið. Var nú rólegt um að vera fyrst um sinn og þar að auki dálítill makríll í, horfir þetta nú allt til betri vegar og höfum við borið ágætlega úr býtum síðasta sólarhring. Telst svo til að komin eru um 1000 tonn í bátinn.

Heyrst hefur að sumir í áhöfninni séu á einhverju fylleríi, nánar tiltekið á fjárfestingafylleríi, hafa menn ýmist keypt hús á hjólum eða tæki til að draga svoleiðis. Ekki meir um það.

slappur.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þessi fjárfesti í bjór!

 

Þar til næst.

Kv. Jón Kj.

SVH

 


Mærudagar

Já sælt veri fólkið, í þessum skrifuðu erum við Sullarar að nálgast flotann ósigrandi, sem staddur er djúpt norður af Melrakkasléttu. Leystum við landfestar í nótt eftir að Tandrabergsmenn höfðu klárað að landa úr bátnum og reyndust vera 1150 tonn af hágæða síld sem við bárum að landi.

Hef ég fengið margar áskoranir um að blogga meira og jafnvel verið skorað á mig í bloggkeppni. Voru það peyjarnir á Guðmundi VE sem gerðu það. Á ég mjög erfitt verkefni fyrir höndum ef af því verður, en við lyklaborðið þar situr enginn annar en meistari Hafþór, en hann Einar frændi minn er miklu meiri meistari en hann, fer Haffi hreinlega hamförum um lyklaborðið þessa dagana og veit enginn hvar þetta endar hjá honum, nema kannski hann Einar frændi minn.

Nú stendur yfir svokallaðir sænskir dagar í Naflanum og í beinu framhaldi Mærudagar. Tekur fólk sig saman og skreytir hús sín og garða í hinum ýmsum litum sem þeim tilheyra. Eru haldnar hverfahátíðir, götupartý og boðið uppá ýmis námskeið og fleira.

Vel skreytt hús

 

 

 

 

 

 

 

 

 Hér sést svo eitt fallega skreytt hús, fékk ég þessa mynd lánaða af 640.is en þar má fylgjast með því sem fram fer um þessa hátíðardaga. Hvet ég sem flesta að renna á Víkina gömlu og skemmta sér og öðrum.

Þar til næst.

Kv. Jón Kj.

SVH


Það hafðist....

....að koma með smá fréttir, loksins loksins, af köllunum á Sulla. Hefur ritstjóri staðið undir mikilli pressu frá ýmsum aðilum, hvort sem er af sjónum eða úr landi, að koma með einhverjar fréttir. Vill ritstjóri ekki halda því fram að svo kölluð bloggleti hafi hrjáð hann heldur er hann að gera óformlega könnun á því hvort einhverjir saknar okkar eða hvað????? Eru menn hvattir til að skilja eftir eina og eina athugasemdir.

En að allt öðru, hér um borð hefur verið mikil gleði, þá aðallega hjá kongóbúanum og yfirmussamaskínumeistara, í dag, hafa menn jafnvel hoppað hæð sína í loft upp. Tilefnið? jú hitastigið komst yfir 10 gráður bæði á Eskifirði og Teigarhorni í dag, og gott betur en það, rúmar 15 gráður, takk fyrir. Kættust menn enn meira er þeir sáu að hitinn var hærri á fyrrnefndum stöðum en í nafla alheimsins, fyrir þá sem ekki vita hver nafli alheimsins er, er það að sjálfsögðu gamla góða vík, HÚSAVÍK. Er þetta í fyrsta skipti í túrnum sem hitastigið er hærra á Teigarhorni og Eskifirði en í Naflanum.

Eitthvað er nú veiðin að minnka hjá okkur og hefur verið lítið um að vera í dag, erum við búnir að hífa þrisvar sinnum og aflinn um 1050 tonn, mest megnis síld, hefur einn og einn makríll sést renna niður í lestarnar og er það ekkert til að tala um.

Þar til næst.

Kv. Jón Kj.

SVH


Stutt veiðiferð

Jæja þá erum við víst á leiðinni í land eftir mjög svo stuttan túr, en eins og alþjóð veit þá voru makrílveiðar bannaðar í gær. Náðum við að snara um 700 tonnum af makríl/síld um borð  eftir 3 hol áður en bannið  tók gildi. Vorum við komnir á miðin aðfaranótt þriðjudags eftir að hafa landað 2250 tonnum á Eskifirði og var makríllinn í miklum meiri hluta eða um 2130 tonn. Eitthvað verður stoppað eftir þennan túr en hvað lengi er ekki vitað en vonandi fer síldin að sýna sig eitthvað svo skipin geti einbeitt sér að henni.

Þar til næst.

Kv. Jón Kj.

SVH


Það er að hafast

það er nú svo en við erum komnir með um 2100 tonn og erum þar að líkindum með síðasta hol að við höldum því að strákarnir halda að það vanti ein 250 tonn en það hlýtur að hafast og er komin smá kaldi sem er skrítið eftir alla blíðviðrisdagana eða frá því við byrjunum .kv SU111

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Jón Kjartansson SU-111
Jón Kjartansson SU-111

Uppsjávarskip með 15 manns i áhöfn, en um borð 10 menn í hverri veiðiferð.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband